Hagnýtar upplýsingar við andlát

Andlát


Andlát manns hefur í för með sér ýmis réttaráhrif, ekki síst fjárhagsleg. Til verður sérstakur lögaðili, dánarbú, sem tekur við flestum fjárhagslegum réttindum og skyldum hins látna þar til þau hafa verið leidd til lykta. Um þessi atriði er einkum fjallað í lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og að hluta lögum nr. 8/1962, erfðalögum. Dánarvottorð fæst á sjúkrahúsi þar sem hinn látni lést eða hjá lækni sem annast hefur hinn látna. Dánarvottorð er annars vegar tilkynning til Þjóðskrár um banamein og andlát viðkomandi og hins vegar tilkynning til sýslumanns um andlátið. Sýslumaður aðstoðar eftirlifendur með dánarbú og veitir upplýsingar um erfðamál. Sýslumaður sendir tilkynningu til innlánsstofnana og biður um að innistæður á reikningum hins látna séu frystar. Sjá www.tr.is/andlát - umsókn um dánarbætur.

Tryggingastofnun


Dánarbætur greiðast eftirlifandi maka yngri en 67 ára í 6 mánuði og 12 til 36 mánuði í viðbót ef börn innan 18 ára eru á framfæri og tekjur undir ákveðnum mörkum. Kr. 47.186 (6 mán) og kr. 35.347 (12 mán). Dánarbætur greiðast einnig fjárhaldsmanni barna yngri en 18 ára eða 18 til 20 ára ungmenni í námi.

Barnalífeyrir greiðist ef hinn látni á börn yngri en 18 ára og til 20 ára ef um er að ræða ungmenni sem er í námi. Hægt er að framlengja til 20 ára aldurs barns ef það er í námi og greiðist upphæðin þá beint til ungmennis. Barna¬lífeyrir/menntunarstyrkur er ekki tekjutengdur og er 31.679 kr. á barn/ungmenni eða 380.148 kr. á ári.

Heimilisuppbót að fjárhæð kr. 39.851 á mánuði er greidd eftirlifandi maka sem er einn um heimilisrekstur og nýtur örorku- eða endurhæfingarlífeyris og tekjutryggingar. Ef eftirlifandi maki er ellilífeyrisþegi getur hann átt rétt á heimilisuppbót að fjárhæð kr. 52.316 á mánuði.

Mæðra- og feðralaun eru möguleg fyrir einstæða foreldra með tvö eða fleiri börn.
Mæðra og feðralaun: Falli greiðslur örorkulífeyrisþega niður vegna vistar á sjúkrastofnun getur maki hans með tvö eða fleiri börn þeirra yngri en 18 ára fengið greidd mæðra- eða feðralaun. Með tveimur börnum eru greiddar 9.171 kr. og með þremur börnum og fleiri eru greiddar 23.844 kr. Mæðra/feðralaun eru skattskyld en ekki tekjutengd.

Stéttarfélög


Útfararstyrkur er greiddur hjá flestum stéttarfélögum. Flest stéttarfélög starfrækja sjúkrasjóði sem greiða m.a. bætur eða styrki til maka eða barna 18 ára og yngri við fráfall félagsmanna.

Lífeyrissjóðir


Makalífeyrir samkvæmt reglum viðkomandi sjóðs.
Barnalífeyrir með börnum yngri en 18 ára og oft til 22ja ára ef viðkomandi ungmenni er í námi.

Skattstjórinn


Eftirlifandi maki getur nýtt sér skattkort hins látna í 9 mánuði eftir andlát hans. Hægt að sækja um lækkun á tekju- og eignaskatti vegna andláts ef sýnt er fram á röskun á fjárhagi vegna andlátsins.

Borgar-og bæjarskrifstofur


Fasteignagjöld og útsvar, hugsanlega fæst afsláttur ef tekjur eru undir ákveðnu viðmiðunarmarki.

Félagsþjónusta sveitarfélaga


Hægt að sækja um fjárhagsaðstoð vegna útfararkostnaðar ef tekjur eru lágar og félagslegar aðstæður erfiðar.

Hagnýtar upplýsingar: Á vefsíðunni forsætisráðuneytisins: www.island.is undir liðnum Opinber þjónusta er að finna upplýsingar og praktískar leiðbeiningar varðandi andlát. Gott að slá inn andlát í leitarvél.

Stuðningur eftir andlát

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélags Íslands
Sigrún Lillie Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur og Hulda Guðmundsdóttir guðfræðingur hafa séð um samveruna. Sjá nánar á dagskrá Ráðgjafarþjónustunnar sem finna má á heimasíðu Krabbameinsfélagsins www.krabb.is

Ný dögun eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð, sem hafa það að markmiði að styðja syrgjendur. Starfsemi félagsins lýtur fyrst og fremst að stuðningi, ráðgjöf, upplýsingaþjónustu og fræðslu. Samtökin eru öllum opin. Félagið hefur á að skipa reyndum aðilum sem unnið hafa að sálgæslu og geta veitt stuðning og ráðgjöf. Ný dögun er áhugamannahópur sem sinnir félagastarfinu í sjálfboðavinnu og því er félagið ekki með símaþjónustu allan sólarhringinn. Vefsíðan er www.sorg.is

Einhverjir stuðningshópar í sóknarkirkjum og má fá upplýsingar um slíkan stuðning hjá prestum og djáknum í kirkjum. Einnig á www.kirkjan.is

Aðild að þjóðkirkjunni er ekki skilyrði fyrir þátttöku í sorgarhópum kirkjunnar. Upplýsingar má einnig fá í síma 511 1560 og á vefsíðu Neskirkju www.neskirkja.is
Gagnasafn um sorg, dauða og erfiða lífsreynslu, ætlað almenningi og fagfólki, www.missir.is