Hvað er Opið hús?

Á vegum Nýrrar dögunar er boði upp á dagskrárlið sem nefnist Opið hús. Það er opinn stuðningshópur þangað sem fólk getur komið einu sinni eða oftar. Opið hús byggir á því að þátttakendur deila reynslu hver með öðrum, tjá sig eða hlusta á það sem aðrir hafa fram að færa. Hér er því að ferðinni n.k. jafningjastuðningur eða jafningjafræðsla. Allir sem koma fá tækifæri til að tjá sig án þess að það sé nein skylda – fólk getur allt eins komið og hlustað á sögur annarra af sorgarúrvinnslu sinni. Það sem sagt er á fundinum er bundið trúnaði.

Opið hús fer þannig fram að stjórnandi hefur stuttan formála þar sem farið er fyrir fyrirkomulag, þátttakendur eru minntir á að sýna hver öðrum tillitssemi og að halda trúnað. Síðan fer fram samræða í einn til einn og hálfan tíma. Á eftir er boðið upp á kyrrðarstund fyrir þau sem það kjósa.

Opið hús eins og nafnið bendir til er þjónusta við syrgjendur allt árið um kring því sorgin tekur sér hvorki sumarleyfi né vetrarfrí.

Yfirlit yfir opin hús veturinn 2015-2016 er að finna í dagskrá vetrarstarfsins (sjá hér).